Kim Gordon; Kvenhetjan og eiginkonan

Rokkgyðjan Kim

Ævisaga Kim Gordon kom út fyrir stuttu. Hún er að sjálfsögðu forvitnileg fyrir margra hluta sakir en þó verður að viðurkennast að endalok hjónabands hennar og Thurston Moore hlýtur að auka sölugildi bókarinnar til muna. Já það er ljótt að segja það en fólk þyrstir í slúður af þessu taginu, hvers vegna, já hvers vegna eru skilnaðir, framhjáhöld og óhamingja af þess völdum svo áhugaverð?

Strax í fyrsta kaflanum fær fólk það sem það var að bíða eftir þar sem hún dembir sér af krafti í sambandsslit sín og Thurston. Þegar því svo sleppir svo fer hún í gegnum æsku sína í Kálhorníu, uppvöxt sinn og bróður síns en faðir hennar var m.a. nokkuð þekktur innan akademíunnar sem félagsfræðingur og finnst mér ég oft greina áhrif hans í textanum og Kim býr yfir innsæi í slík fræði. Ég er nokkuð hrifin af stílnum hennar sem er fremur hreinn og beinn. Stundum finnst mér hún reyna koma inn ljóðrænni stíl sem mér finnst hún ekki höndla jafn vel. Í umsögn er talað um að bókin sé lík Just kids eftir kollega hennar Patti Smith en þar er ég fullkomlega ósammála.

Stíll Kim er nefnilega bæði þurrari og staðreyndalegri en bókin er hins vegar alveg áreiðanlega mjög góð heimild um listasenuna í New York á níunda og tíunda áratugnum. Einnig hvernig New York fór úr því að vera suðupottur neðanjarðarmenningar og tónlistar í það að verða fokdýr snobbhöfuðborg. Sumir kaflar, einkum um miðbikið, verða því svolítið upptalningasamir. Kim virðist á köflum vera að „namedroppa“ töluvert sem er ekkert sérlega skemmtilegt aflestrar.

Kim talar um það hvernig það er að vera kona í hljómsveit og það sem meira er, par í hljómsveit og eiginkona. En þar finnst mér hún ekkert fara neitt sérstaklega djúpt. Hún gerir kannski svolítið lítið úr sínum status sem kvenhetju og fyrirmynd margra stúlkna. Eins og fyrir henni þá sé þetta aðeins röð tilviljana. Þannig er hún ekki beinlínis trú titli bókarinnar eða ætlan sinni með bókinni. Hún segir frá því hvernig nokkrar plötur urðu til, hvernig artworkið var valið o.s.frv.. Hún fer í alls konar núninga sem voru innan hljómsveitar (og virðast algengir í hljómsveitalífinu) og talar oft og tíðum um fatastíl sinn og tímabil sitt sem eigandi fatamerkis.

Um Thurston og samband þeirra er mikið minna rætt en mætti kannski ætla á fyrsta kaflanum. En maður hefur á tilfinningunni að hún sé heiðarleg. Hún er ekki að setja hann niður óþarflega mikið. Raunar talar hún verr um aðra manneskju í bókinni en það er Courtney Love. Maður hefur heyrt úr ýmsum áttum að Courtney hafi verið allt annað en „góðar fréttir“ en Kim hreinlega stafar það ofan í mann að hún hafi beinlínis verið ástæðan fyrir hörmungarörlögum Kurt. Kurt talar hún ljúflega um, hann hafi verið viðkvæm sál sem hafi snert sig djúpt.  Í heildina skrifar Kim minna um samband sitt við Thurston en ég hefði ætlað en stundum koma stuttar og harmrænar setningar. Í lokin á kafla þar sem hún skrifar mjög illa um C. Love segir hún t.d. að Thurston hafi alltaf dregist að slíku myrkri eins og henni og fleirum fannst búa í Courtney en fer ekkert nánar út í það.

Þó að hjónabandið og ástarsorg hennar séu ekki aðalatriðið í bókinni liggja þessir þættir yfir eins og mara. Kim er hreinskilin um hjartasárið, um ástarsorgina og væntingar sínar til lífs þeirra saman. En hún er líka hreinskilin í leit sinni að skýringum, hún talar heilt yfir fremur fallega um Thurston áður en hann fer að halda framhjá henni. Hann studdi hana í einu og öllu, listsköpun sinni og verkefnum. Hann var góður pabbi og ábyrgur fjölskyldufaðir. Þau vildu bæði gefa dóttur sinni venjulegt líf þó það væri næstum ómögulegt. En fyrir okkur „venjulega fólkið“ voru þau eitthvað meira en venjulegt indí-par útíbæ. Þau táknuðu eitthvað fullkomið og ósnertanlega svalt og Kim skilur það líka. Við venjulega fólkið þurfum að horfast  í augu við það að þessi helgimynd sem fólk býr til ósjálfrátt um frægt fólk stenst ekki skoðun, er ekki raunveruleg.

Það er því grátlegt að lesa lýsingar hennar á neðanjarðarrokkhetjunni sem er bara venjulegur, „banal“, miðaldra maður sem lýgur blákalt og lifir tvöföldu lífi með yngri konu. Með andlitið grúfið yfir æfóninum að senda skilaboð til ástkonunnar.  Hin konan er hún kölluð og aldrei nefnd á nafn og dregur Kim ekkert undan í andstyggð sinni á hinni konunni. Bókin er hreinskilin og heiðarlega skrifuð. Kim er sýnilega ekki að skrifa hana til þess að gera upp líf sitt í eitt skipti fyrir öll, samband þeirra hjóna og skilnað. Hún er ekki tæmandi eða nákvæm og stundum finnst manni hún jafnvel yfirborðskennd. En svo flettir maður á næstu síðu og þá er hún allt í einu orðin hjartaskerandi hreinskilin. Áhugafólk um Sonic Youth, listasenu NY og mannlegan breyskleika ætti að finna sitthvað hérna og Kim kemst vel frá þessu öllu saman þegar allt er saman tekið.

Auglýsingar

Í útlegð frá jólabókaflóðinu, tvær bækur, tvær konur og einn haukur

stjörnurnar fyrir ofan okkur.
stjörnurnar fyrir ofan okkur.

Ég áttaði mig á því um daginn að ég er búin að vera í jólabókaflóðsútlegð núna á þriðja ár. Kostirnir eru auðvitað ótvíræddir, ég missi af æsingnum og hæpinu. Hins vegar eru ókostirnir þónokkrir; ég sé ekki bækurnar sem iðulega hverfa í flaumnum og er ekki með í umræðunni. Nú svo verður að segjast að ef hægt væri að nálgast þessar bækur á kindle…tja án þess að borga með líffæragjöfum.  Síðustu tvö sumur hef ég nú alveg átt þess kost að finna til jólabækurnar sem ég hef misst af en hef ekki notað tækifærið almennilega, kannski mestmegnis út af því að bækur kosta allt allt of mikið á Íslandi núorðið-þannig það eru fornbókabúðirnar hérna úti sem fá mína örfáu aura.

En hins vegar er lesbókin ekkert hætt að lesa, þó einu aðdáendur þessarar síðu séu einhverjir útlendingar á facebook sem halda að hér sé um einhverja Lesbíuklámsíðu að ræða! Nei ég verð víst að valda þeim vonbrigðum enn einu sinni.

Burial rites/Náðarstund

Ég rakst á eina bók sem ég veit að var í flóðinu á Íslandi og kom mér verulega á óvart, tja já einmitt fyrir snilli!

Burial rites sem ég las nú nýverið á ensku. Ég vissi af bókinni og hafði verulega margar hugmyndir um hana fyrirfram (þ.e. fordóma) hélt að hér væri á ferðinni svokölluð túristabók.., ég hélt að hún hefði verið hæpuð upp fyrir jólin. Því jú hvað getur aumur Ástrali raunverulega vitað um það að búa á Íslandi á átjándu öld. Hugsaði ég.(ný-frá-búinn sjálfur).

Greinilega heilmikið, bókin fannst mér í fyrsta lagi fanga Ísland og Íslendinga afskaplega vel. Andinn í bókinni er mjög íslenskur, já og moldbúalegur. Höfundur notar Íslensku mikið í textanum sem mér finnst koma mjög vel út í velflestum tilfellum. Þó ég hafi lesið bókina á ensku þá var hún með sterkum íslenskum hreim ef svo má segja. Sagan er ein af þessum sögum sem maður þekkir án þess að þekkja en sjónarhorn Agnesar og fólksins á Kornsá. Ég er hrifin af stílnum hennar og hún skrifar bæði af mikillri samúð og kunnáttu um íslenska þjóðarsál og aðstæður á þessum tíma. Bókina las ég í einum spretti og gat vart lagt hana frá mér. (Fullt af stjörnum)

H is for Hawk/ H fyrir Hauk

Þessa bók slefa margir yfir hér í Bretlandi. Ég rakst reyndar óvænt á höfundinn á bókmenntahátíðinni hér í Edinborg. Macdonald var einkar hispurslaus og skemmtileg kona sem gekk upp að mér og tveimur íslenskum bókmenntahátíðarskipuleggjendum í kokteilpartýi. Sagði okkur í óspurðum að hún væri alveg svakalega hissa á þessari athygli sem hún væri að fá og lofi.

Bókin fjallar um þegar höfundur tekur í fóstur Hauk (gáshauk) sem fléttast við sorg höfundar vegna nýlegs fráfalls föður síns og einnig sögu TH White og sem Macdonald las í æsku þegar hún var fuglanörd. TH White er þekktastur fyrir að bókina sína um Arthúr Konung en hann skrifaði sjálfur bók um tilraunir sínar til þess að þjálfa Hauk og sína eigin sjálfsleit.

Sem leikmanni í þessum haukafræðum verð ég að viðurkenna að ég átti erfitt með að hrífast með tilraunum höfundar til þess að þjálfa þennan fugl heima hjá sér í einhverju bresku koti í Cambridge. Fannst byrjun bókar þunglamaleg og erfitt að halda mér að lestri. Tenglsin hennar og pabba hennar, sorg hennar og leið hennar til að takast á við sorgina með þessum hauk snertu ekki við mér. Fannst textinn kaldur, fjarlægur og stundum leiðinlegur.

En maður áttar sig fljótt á því að Macdonald er að fara inn á svið sem virðist fyrst vera frátekið fyrir karlmenn og það sem meira er karlmenn af efri stigum þjóðfélagsins. Það þarf svo sem ekki að fara í saumana á þessu stéttasamfélagi sem er hér á eyjunum en það er ljóst að hún er að fjalla um enn einn af þessum heilögu kaleikum samfélagsins.

Seinna í bókinni þegar hún fer að fara út í náttúruna verða lýsingarnar áhugaverðari á umhverfinu þó þarna sé um að ræða frekar tíðindalítið enskt landslag. Í mínum huga er þessi bók ákaflega fróðleg í leitinni að breskri þjóðarsál og kannski þess vegna skiljanlegt hversu vel bókinni hefur verið tekið. Í stuttu máli hreifst ég ekki af bókinni eins og ég hafði átt von á. (Aðeins færri stjörnur)

Qui est Charlie?

Ég er fædd í suður-Frakklandi, nánar tiltekið í Aix-en-Provence. Ég var á leikskóla í arabahverfinu, besti vinur minn hét Mouhamed kallaður Momo. Ég var ekki nema fimm ára þegar ég fór með mömmu og vinkonu hennar til Alsírs og amma mín franska var „Pied noir“ (afkomendur fyrstu innflytjenda frá þá nýlendum frakka í Norður-Afríku) sem bjó til besta Cous cous undir sólinni. Af Alsírferðinni á ég margar en þó slitróttar minningar. Við gistum hjá fjölskyldu og ég var borin um á gullstól eins og lítið aðalsborið barn. Það var Ramadan en ég fékk að vera inni í eldhúsinu hjá húsmóðurinni (mesta forréttindastaðan var mér sagt síðar), ég man eftir hlýjunni og kryddilminum í eldhúsinu, hún stóð við pottana endilangan daginn og eldaði fyrir veislur kvöldsins, ég fékk að smakka á öllu því sem ég vildi. Oftast sat ég við eldhúsborðið og drakk mitt „café au lait“ en ég fór líka á asnabak og man eftir yndislegum ferðum á ströndina þar sem allir krakkarnir á heimilinu léku við mig og dekruðu.

En strax í sex ára bekk urðu skilin mjög skýr og ég kynntist fljótt rasisma. Arabakrakkarnir léku sér saman og frönsku léku sér saman. Ég, útlendingurinn fékk oft að fljóta á milli enda hét ég nafni sem var erfitt að bera fram eins og arabarnir en var hvít (reyndar oft talin lasin vegna fölleika) eins og frönsku börnin. Tilviljun réði því að ég bjó einmitt í blokkahverfinu á milli arabahverfisins og franska hverfisins. Arabakrökkunum gekk oft verr í skólanum, voru erfiðari. Einn af strákunum sem var með mér í tíu ára bekk var þrettán ára. Hann átti ekkert sameiginlegt með okkur hinum, var erfiður og fékk að finna fyrir því, á hverjum einasta degi þennan vetur reif kennarinn í hár hans þegar drengurinn var búin að ganga fram af honum. Einn daginn kom strákurinn nauðrakaður í skólann en allt kom fyrir ekki, kennarinn togaði þá í eyrun hans. Þótt að þessir krakkar væru flest fædd í Frakklandi fengu þau að finna fyrir því oft á dag að þau væru ekki frönsk og þar með verri.

Svona var það og þó ég áttaði mig ekkert endilega alltaf á því vegna þess að maður verður samdauna þá vissi ég snemma hvað kynþáttahatur var. Ég þekkti orðið rasismi, ég heyrði fullorðna fólkið oft tala um það.  Ég vissi líka að það að mér væri boðið í afmæli til frönsku stelpnanna en ekki Samiu vinkonu minni sem var 2. kynslóðar innflytjandi af alsírskum ættum væri rasismi . Ég vissi að það að arabakrakkarnir væru látnir falla ár eftir ár væri ekki rétt. Og ég vissi líka að rassskellingar og hártoganir í skólastofunni væru vondar og niðurlægjandi fyrir þessa krakka. Einhvers konar ósýnileg en samt sýnileg aðskilnaðarstefna? Hverjar eru afleiðingarnar?

Þegar ég kom til Marseille þó nokkuð mörgum árum seinna brá mér þegar ég sá 6-7 ára stelpu með Hijab. Ég kynntist því orði ekki fyrr en miklu seinna því krakkarnir sem voru með mér í bekk voru mörg hver frá trúuðum fjölskyldum en enginn þeirra né eldri systur og í fæstum tilfellum mæður gengu með slæður. Búrkur hafði ég aldrei séð fyrr en nú á síðastliðnum árum. Ég man vel eftir því þegar Samia sagði mér frá því spennt að á næstu árum fengi hún að taka þátt í Ramadan/föstumánuði múslima alveg eins og ég man eftir því að hafa setið í herberginu hennar að hlusta á Madonnu.

Í ferð okkar mæðgna til Alsír sagðist mamma hafa séð strangtrúarmann, henni hafði verið sagt að þeir væru litnir hornauga. Í dag er heimurinn annar, strangtrúarmenn komnir í meirihluta í Alsír og slík ferð eins og við fórum í líkast til ekki farin. Staða stúlkna og kvenna orðin verri hjá strangtrúuðum fjölskyldum og hægri öfgaflokkar í Frakklandi (sérstaklega í suður Frakklandi þangað sem flestir innflytjendur koma fyrst) orðnir stærri og umsvifameiri.

Það er langt síðan ég bjó í Frakklandi og margt sem ég veit ekki um þróun þessara mála þar. En ég velti því fyrir mér hvar Momo, Samia og allir þessir bekkjarfélagar mínir eru í dag. Skyldi Samia vera með slæðu, skyldi hún hafa farið í háskóla? Þegar ég hugsa um Charlie Hebdo morðin finnst mér einmitt að gjáin milli þessa fólks hafi verið grafin af okkur sjálfum; vestræna óttanum, rasismanum og nýlendustefnunni. Bræðurnir sem myrtu háðsádeiluteiknaranna og lögreglumennina ólust upp við sama barnaefni og ég með Cabu og Dorothée. Þeir myrtu Cabu og Ahmed líka og umfram allt voru þeir jafn franskir og þeir. En þeirra tilvera einkenndist líklegast minnst af þessu téða málfrelsi og háðsádeilan oft á þeirra kostnað. Skyldu þeir hafa haft tækifærin sem frönsku jafnaldrar þeirrar höfðu? Ég fyllist alltaf vanmætti þegar fólk boðar rasisma, ótta og ofbeldi eftir slíka atburði. Ég var í París 1996 þegar hryðjuverkaárás var gerð á RER-lestarstöð, meira að segja ekki langt undan þar sem hún átti sér stað í Luxembourg-stöðinni og ég þá í Sorbonne. Eftir árásina fylltist París af hermönnum með hríðskotabyssur, þessir hermenn skelfdu mig meir en nokkuð annað sem ég hafði upplifað. Hvert sem ég leit og við alla innganga mátti sjá tómleg andlit með hryllileg vopn.

Ég veit fyrir víst að Cabu fyrirleit öfgahægristefnu Le Pen og hæddist að því óspart. Ég vona svo innilega að þeirri skútu verði siglt í strand því í henni er engin lausn. Aðeins ótti.  Samstöðugöngurnar í Frakklandi voru í mínum huga milljón skref í átt að einhverju jákvæðu og betra; margfalt betra en að planta hermönnum á hvert horn. Því þrátt fyrir ömurlegan hýpókrítísma ráðamanna og barnamorðingja (sem mættu óforskammaðir) þá er það venjulega fólkið sem myndar samfélagið, það eru þeirra skref sem skipta máli.

Nei takk /no thanks

nei takk sögðu skotarnir…á sinn kurteisa auðmjúka (jafnvel kúgaða) hátt.

Nei varð ofan á í kosningum síðustu viku hér í Skotlandi við spurningunni hvort Skotland ætti að verða sjálfstætt. Byrinn og jákvæðnin sem mér fannst ég hafa greint í kringum mig varð skyndilega að engu, einn nágranninn hafði tekið niður yes skiltin strax fyrir sólarupprás á föstudeginum. Dagurinn eftir kosningarnar var fremur „Dreary“ eins og einn skoski pabbinn sem ég hitti á leið minni sagði og það var ekki eingöngu skosku súldinni um að kenna. En nei, 55% kusu nei og 45% kusu já. Kosningaþáttaka og einnig þáttaka í kosningabaráttu var hins vegar algert met og einmitt þess vegna vilja margir meina að vonbrigðin hafi verið sárari fyrir þá sem töpuðu. Það er ljóst að ástæður fyrir hvað fólk kaus eru margar og ólíkar. En Skotland virðist ekki tilbúið til að standa á eigin fótum ennþá.

í Glasgow stærsta borg Skotlands og eitt af þremur kjördæmum þar sem Já-ið var yfir brutust út óeirðir á föstudagskvöldinu, þegar ungir nýnasistar yfirlýstir nei-sinnar (úr BNP) tóku að gera óskunda og hrópa slagorð IRA á meðal syrgjandi Já-sinna á George Square, vinkona mín sem þekkir til þar í borg sagði að þetta væri fremur hefðbundið Glasgó læti um helgar og viðbúið miðað við hversu mikið hitamál kosningin var þar í borg. En einnig sagði hún að vinkona hennar (MaryhillGlasgowbúi) sem hefði verið þarna stödd hefði verið frekar hrædd og að þessi öfgahægrihópur hefði augljóslega byrjað þessi ólæti. Hér í miðstéttar himnaríkinu Edinborg var lítið um ólæti og hér kusu flestir Nei eða um 60%. Unga fólkið sem var að kjósa í fyrsta skipti las ég einhver staðar að hefði kosið já í 70% tilfella, sem styður þá kenningu að þetta hafi aðeins verið fyrsta skrefið að sjálfstæði. Sjálf hefði ég gjarnan viljað sjá skoska fánann á kastalanum þann 19.

Hið kaldhæðnislega við niðurstöðu kosninganna er svo hin viðbúnu loforðasvik stjórnmálamanna. Það sem maður átti kannski síður von á er að Cameron héldi beint í eigin sjálfstæðisbaráttu, það er að biðja um enskt þing fyrir enska þingmenn. Sekúndum eftir að hafa lagt mikla áherslu á að Samband væri eina vitið! West-Lothian spurningin (eins og hún er kölluð) sem á auðvitað rétt á sér fjallar um hvers vegna skoskir þingmenn ættu að hafa eitthvað að segja um menntakerfið/heilbrigðiskerfið í Englandi en ekki Skotlandi, því þau mál í Skotlandi fara í gegnum skoska þingið. Cameron segir þá spurningu verða enn mikilvægari eftir að hafa lofað Skotum meiri völd á heimavelli eða hið svokallaða Devo-Max.

Að mínu mati eru þetta  einmitt rökin fyrir því að Skotland ætti að vera sjálfstætt, en hvatir Camerons til þess að þrýsta á þetta akkurat núna virðist vera til þess að hægrimenn (tories) fái sjálfstæði/frið til þess að kjósa um málefni Englands án afskiptasemi verkamannaflokksins (labour). Labour flokkurinn finnst mér frekar patronising við Skotana sem til þessa hafa verið stærsti stuðningsaðili hans. Nú svo er umhugsunarvert að þúsundir hafa skráð sig í skoska flokkinn SNP núna á liðnum dögum.

Það sem mér finnst skuggalegast við þetta er að kosningin virðist að einhverju leyti ekki farið nægilega rétt fram, rússnesku eftirlitsmennirnir (ég veit hljómar sem mótsögn) virðast finna henni allt til foráttu. Naomi Wolf fer mikinn á internetinu um kosningasvindl. Nokkrir félagar á internetinu eru sannfærðir um að breska heimsveldið hefði aldrei sleppt Skotlandi og þess vegna notað brögð til að fá sínu fram. Það er ljóst að allir meginstraumsfjölmiðlar, meira að segja Guardian voru sambandssinnaðir og að þeir þarna suðurfrá ætluðu aldrei að sleppa þessum kílómetrum af golfvöllum og eyjum auðveldlega. Ég get svo sem ekki dæmt um það en er fegin að hafa ekki kosið/fengið að kjósa því þá væri ég í fyrsta lagi mun svekktari en einnig þætti mér eðlilegt að endurtalning færi fram. (Auk þess sem nægilega mikið af minni orku fer í að blóta íslenskum stjórnmálum)

Munurinn á jáinu og neiinu er ekki nægilega mikill til þess að sátt sé með þessa kosningu, tæplega helmingur þjóðarinnar er ekki sáttur með að Westminster skuli stjórna Skotlandi og margir vilja meina að það séu aðeins fáein ár þar til Skotland verði sjálfstætt úr þessu. Það sem mér finnst standa upp úr í þessari kosningabaráttu er þó þessar mismunandi áherslur Skotlands og Englands og þá á ég við Westminster aðallega. Skotar sækjast eftir meiru félagslegu réttlæti, það vill halda í grunn-ríkisstofnanir og er á móti einkavæðingu. Skotar vilja standa að betri og ódýrari barnagæslu sem aftur myndi stuðla að meira jafnrétti og lítur til norðurlandanna sem fyrirmynd í þessu og mörgu öðru. Skotar eru einnig mun jákvæðari gagnvart Evrópusambandinu og er það til að mynda ein ástæðan fyrir því að fólk kaus nei, á meðan Westminster er fremur á móti EB. Westminster hins vegar virðist gegnsýrt af óheilbrigðum, klíku, „back-stabbing“ og svikastjórnmálum sem ég kannast aðeins of vel við frá heimahögunum. Sem Íslendingi kom mér t.d. mjög á óvart reisn Alex Salmond eftir kosningarnar og tilkynning hans um afsögn…eitthvað sem já Íslenskir innanríkisráðherrar (hóst Hanna Birna hóst) mætti taka sér til fyrirmyndar.

Að lokum vil ég leggja til: Frjálst Skotland, Frjálsar Færeyjar og Frjálst Grænland! Niður með kúgun og kólónialisma!

Nei eða Já, Já eða Nei, Nú eða Þá!

JESS!

Já! það er lævi blandið andrúmsloft í Skotlandi því á næstu dögum verður kosið um sjálfstæði Skotlands, nánar tiltekið þann 18. september næstkomandi.  Í þessi tvö ár sem við höfum dvalið hér hefur þessi umræða verið frekar áberandi en nú er eins og gefur að skilja að sjóða upp úr. Fyrir ári síðan þegar kveikt var á einhverju viðtæki mátti heyra setninguna „Should Scotland be independent“ og endalausar umræður, núorðið heyrir maður aðeins  „The Yes campaign…blablabla“ eða „The No campaign blablabla…“

JÁ stendur í gluggum blokka, húsa, búða, bíla og YES og NO límmiðum fer einnig fjölgandi á lokasprettinum. Í sumum blokkum sem ég hjóla framhjá má sjá YES í einum glugga og svo NO í glugga fyrir neðan … ég ímynda mér að þessir nágrannar eldi grátt silfur þegar þeir mætast á stigaganginum. En það er kannski einmitt málið, Skotarnir hafa mér fundist frekar auðmjúkir og kurteisir í þessu ferli öllu. Ég velti því fyrir mér ef þessir nágrannar Skotar og Englendingar væru raunverulega meiri óvinir en raunin reynist væri Jáið sterkara. Ef Skotar væru kúgaðri … eða eru þeir kannski svo kúgaðir að þeir eru orðnir vanir því, með Stokkhólms-heilkennið svokallaða. 

AYE, þegar ég kom hingað fyrst var ég haldin nokkuð mörgum ranghugmyndum um Skota og Skotland. Mér fannst t.d. að Skotland væri í raun bara sýsla í Englandi, var hálf vandræðaleg við skólastjórann eftir að hafa sagst vera nýflutt til Englands. Hins vegar fannst mér að allir ættu að vera sjálfstæðissinnar og annað kæmi ekki til greina.  Eftir því sem ég talaði við fleiri og kynntist fólkinu í hverfinu varð mér ljóst að þetta er auðvitað alls ekki jafn einfalt og já kona ætlaði.

Jessörí, við búum í ansi venjulegu, millistéttar-Edinborgarhverfi. Hér eru svokallaðar tenement íbúðir og colonies sem eru týpísk Edinborgar-raðhús. Allt þetta hverfist um skólann sem af ríkisskóla að vera þykir nokkuð góður og svo Harrison garðinn góða og kanalinn. Hér kaupir fólk Guardian, á börnin sín upp úr 35, á yfirleitt tvö börn nálægt í aldri vegna arfaslaks leikskólakerfis, fer út að hlaupa reglulega. Það fær sér Tea á kvöldin og á við kvöldverð og talar um dinner tickets þegar þau tala um hádegismatsmiðana í skólanum. Við köllum þetta Álfheima suðursins. Hér er fátt um hipstera og converse-skó. Hins vegar eru nokkrir frægir í ríkari enda hverfisins og síðast í dag hjólaði ég í flasið á Ian nokkrum Rankin (Jáari), sem var bara að langintesast með syni sínum. 

Jamm og merkilegt nokk þá eru flestir umhverfis mig, þeir sem ég þekki aðeins betur en þeim sem ég heilsa vinalega „Heyja“ með Jáinu. Skotar, Englendingar, Ástralar, Þjóðverjar, Brasilíubúar og já allra þjóða kvikindi og af mörgum ólíkum ástæðum. Flestir útlendingarnir og þónokkrir Englendingar voru fljótir að tjá mér hvað þeir hyggðust kjósa, Skotarnir hafa verið feimnari við að tjá skoðun sína við mig og sumir hverjir verið lengi að ákveða sig. Eldri dóttir mín sagði mér að margir krakkar hefðu kosið NO í skólanum um daginn en hún hefði kosið YES „because I don’t like the sound of no“. Ég sprakk að sjálfsögðu úr stolti af vel ígrundaðri ákvörðun dótturinnar. 

Jú, sjálfri hefur mér þótt mest heillandi þessi jafnaðarmannahugsun sem er ríkjandi í Skotlandi og sker þá frá Englandi bókstaflega í lífsskoðunum. Þeir vilja og hafa fría heilsugæslu fyrir alla, þeir vilja almennilegt leikskólakerfi og fyrirmyndin í mörgu af þessu eru Norðurlöndin. Skotar hafa löngum verið helstu kjósendur Verkalýðsflokksins í Bretlandi og því mikill missir að þeim fyrir hann. Darling óvinur okkar Íslendinga er fremstur í flokki Neiara en þeirra taktík er oft kölluð og af þeim sjálfum meira að segja PROJECT FEAR. Ég hitti Englending á dögunum sem sagði mér að honum fyndist að Skotar ættu að fá að ákveða sig án afskipta. En svo virðist sem allir fjölmiðlar, jafnvel Guardian, séu pro-union, svo hvort það sé raunverulega hægt er spurning. Í vor hins vegar hitti ég fyrir frekar týpískan suður-Englending sem fór mikinn í því að Skotar væru of vitlausir til að stjórna sínu eigin landi. Já þeir eru til þessir líka!

Já meðan ég man, fyrir einhverjum dögum síðan sagði Stefán Pálsson sagnfræðingur að ástæðan fyrir því að Noregur vildi ekki fá okkur sem 20. fylkið og einnig ástæðan fyrir því að Skotland yrði sjálfstætt hvort sem það gerðist nú eða síðar væri vegna þess að tími stórvelda væri liðinn eða eitthvað svoleiðis…ég man það ekki almennilega. En það sem ég hjó í og það sem mér finnst oft vanta í þessa umræðu er menningin. Ef Skotar hefðu meiri og betri sjálfsmynd sem Skotar, þekktu sögu sína betur og menningu þá væri JÁið mun sterkara að mínu mati. Alveg eins þykir mér 20. fylkið arfaslök hugmynd því hún byggir aðeins á fjárhagslegum grunni og ríkt Íslenskt menningarlíf varla rætt. Soffía frænka Jón Bjarna og Jón Odds hefði svarað þeim rökum að borðum við ekki bækur! Eða hvað? En það sem hinn almenni Skoti virðist óttast mest og hefur mestar áhyggjur af er jú peningarnir. Ég spyr; hvað gera peningar fyrir sjálfsmyndina? 

JÁ! Við erum að upplifa spennandi tíma hér í Skotlandi, reyndar svo spennandi að stundum finnst mér að fréttakonan á STV sé í þann mund að springa. BBC liðið er svo mikið að reyna vera hlutlaust að ég er orðin hrædd um að þau bræði úr sér. Undanfarið hefur Jáliðið fengið óvæntan meðbyr og fylgið aukist um 8% en lengi vel hefur Nei verið með 57 % og Já 43%. Alex Salmond leiðtogi Jámanna birtist í fréttum í gær léttur í spori og skælbrosandi, jú við jáfólkið erum orðin ansi nálægt því.

En JÁ! hvort Já verði ofan á eða Nei kemur í ljós eftir nokkra daga! 

 

 

 

 

 

1. maí!

1. MAIÉg fór að mótmæla nú um helgina. Eða öllu heldur fór ég í hjólakröfugöngu, Pedal on Parliament, en þar fóru á hjólum þúsundir Skota sem kröfðust betri aðstöðu fyrir hjólafólk og gangandi. Þetta er svo sannarlega þarft verkefni því þó Skotinn sé almennt með kurteisari og ljúfari þjóðum þá eru þeir algjörir ökufantar og virðast bílar eiga allan forgang í umferðinni. Þetta gerir það að verkum að við hjólum til dæmis ekki með dætur okkar niður í bæ og höldum okkur aðeins við verndaðar hjólaleiðir svo sem hér við kanalinn.

En hvað um það, þar sem við sitjum í skoskri vorsólinni við skoska þingið með skoskri vinafjölskyldu fer ég að tala um 1. maí. Hvernig stendur á því að hér sé engin kröfuganga? Fjölskyldufaðirinn, hinn ljúfasti vinstri-ecohugsandi Skoti spyr sakleysislega hvað ég sé eiginlega að tala um!? Hvaða 1. maí göngu, er þetta eitthvað íslenskt? Og ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð hvumsa, hvað meinarðu, þetta er Baráttudagur verkalýðsins sem er frídagur í fjölmörgum löndum t.d. Frakklandi, Þýskalandi, RÚSSLANDI. Þar sem fólk fer í kröfugöngur, krefst réttinda fyrir verkalýðinn, berst fyrir jafnrétti, já og alls konar. Skotanum ljúfa varð nokkuð hverft við og segir þá að gamni sínu eitthvað á þá leið: „Fólk er sum sé að koma saman og væla“.

Í eðlilegu árferði hefði ég umturnast enda getur undirrituð verið afskaplega blóðheit varðandi baráttuna gegn kapítalisma og hvað þá vegna 1. maí.

Hvað er 1. maí fyrir mér prívat og persónulega? Alveg hellingur af minningum a.m.k. Ég man eftir að hafa verið á háhest á pabba í einhverjum göngum sem polli, kannski af því að ég á nokkrar myndir af okkur pabba í einhverjum mótmælagöngum, hann í útvíðum og loðinn og ég fremur sakleysislegur glókollur á öxlum hans. Ég man eftir örfáum hræðum við Hlemm í roki og rigningu, afa og ömmu og góðum kleinum í 1. maí kaffi í MÍR á Vatnsstíg eða 1. maí kaffið hjá Allaböllum í Kópavogi. Brjáluðu stuðgöngunni í París, gettóblasterar á bílum og fólk dansandi á eftir. Ég man eftir þónokkrum göngum í menntó þar sem ég procrastineraði prófstressið og skellti mér í rauðan kjól og rauða docmartens og hélt í gönguna. Ég man sögurnar um gönguna í gamla daga sem pabbi og mamma sögðu mér, þegar gangan skiptist í fylkinguna, Maóista og fleiri sellur nema Jón úr Breiðholti sem labbaði alltaf á móti göngunni. Ég man eftir Pétri bróður hennar ömmu ruslakarli og kommúnista sem ég gat engan veginn haldið í við því hann gekk alltaf svo hratt nema það hafi verið í Keflavíkurgöngunni. Ég man eftir ömurlegri auglýsingaherferð sem tók þátt í göngunni eitt árið til að auglýsa Tópas eða eitthvað álíka. Að ég þorði ekki í 1. maí gönguna í Berlín út af einhverjum nýnasistum í Friedrichshein. Ég man líka örstutta 1. maí gönguna, líkast til í góðærinu svokallaða þar sem jepparnir risavöxnu ráku lestina á eftir kröfugöngunni alveg brjálaðir að þurfa hægja á ferð sinni niður Laugaveginn. Fyrstu 1. maí göngu dætra minna dúðaðar í barnavagni með blöðrur bundnar við handfangið.

Fyrir mér hefur 1. maí gangan alveg heilmikla merkingu þá og nú, fyrir betri kjörum þeirra lægst launuðu, fyrir jafnrétti, fyrir náttúruvernd, gegn kapítalisma og fyrir meðvitund á ástandi heimsins – já og ekki má gleyma heimsfriði. Það er kannski engin furða að þeir séu enn undir hælnum á Englendingum þegar þeir geta ekki einu sinni haldið upp á 1. maí. Já, andskotinn hafi þaðl!

 

 

23-24 Jól

Heims um ból

Flugpóstur

 

Í leit að póstkassa

bar ég bréfið um borgina.

Í skógarflæmi steins og steypu

flögraði þetta villuráfandi fiðrildi

 

Fljúgandi teppi frímerkisins

skjögrandi bókstafir heimilisfangsins

og innsiglaður sannleikur minn

svífur einmitt núna yfir hafið.

 

Skríðandi silfur Atlanshafsins.

Skýjabakkarnir. Fiskibátur

eins og útskyrptur ólívukjarni.

Og fölleit ör kjalrastarinnar

 

Hér niðri miðar starfinu hægt.

Mér verður oft litið á klukkuna.

Skuggar trjánna eru svartir tölustafir.

í gráðugri þögn.

 

Tomas Tranströmer. Ljóð 1954-2004. Njörður P. Njarðvík íslenskaði. Uppheimar, 2013.

 

Þessi bók er á náttborðinu núna, ljóðið var nánast valið af handahófi. Kannski af því við erum mörg sem bíðum eftir pósti, flugpósti með jólakveðjum.

Gleðileg Jól lesbókarlesendur.

Ást og friður

21-22 tvö ljóð

geimurinn

VATN

Efst

á bókarkili

er fjallavatn

svo tært svo hreint

að gárast aldrei

í augsýn

lífsreyndra fjalla

 

II.

Læstur inni

í fangaklefa eigin drauma

meðan fyrir utan duna

dagar fangavarða böðla

 

tunglið og stjarnan

þér jafnfjarri og

guð geimfaranum

beitt eggin martröðinni

 

sem gengur hvert sinn

sem hugur þinn hefur svikið

sjálfan sig og

úlfaldalestir veraldarinnar

 

flúið reinslunnar vin

 

Geirlaugur Magnússon, Þrisvar sinnum þrettán. Mál og Menning. 1994 .

Merkilegustu hlutir verða til í þessum geimi og gleymast.

19-20. ljóð

Graf sem sýnir heimilishræringar á Harrison Road í dag.

Nei þið fáið engin ljóð frá einhverjum sveltandi skáldum í dag (né í gær). Ritstjórinn er að skipuleggja risavaxið tvöfalt barnaafmæli sem skal haldið á stysta degi ársins í hverfiskirkjunni (já og þremur dögum fyrir jól). Fjölskyldulífið í dag líktist helst til um of jarðhræringum undir vatnajökli. Þar að auki er kónguló í baðherbergisloftinu hjá okkur.